Vektorar og fylki
Margföldun fylkja
Fylkjum bylt
Víxlregla og tengiregla
Hlutleysa
Andhverfa
Jöfnuhneppi
Ákveður
  Dálkvektor og línuvektor, sem innihalda sömu stök í sömu röð, eru efnislega jafngildir en form þeirra skiptir máli í reikningum. Sú formlega krafa er nefnilega gerð í fylkjareikningi við margföldun tveggja vektora að fyrri vektorinn sé línuvektor en sá síðari dálkvektor.

Fylki má hvorttveggja líta á sem safn línuvektora eða sem safn dálkvektora. Þegar tvö fylki eru margfölduð tökum við fyrra fylkið sem safn línuvektora, en seinna fylkið sem safn af dálkvektorum. Síðan eru allir línuvektorarnir innfaldaðir við alla dálkvektorana. Um margföldun fylkja gilda því tvær reglur:

  • Lengd línuvektora fyrra fylkisins verður að vera jöfn lengd dálkvektora seinna fylkisins.

  • Útkoman er fylki með jafnmargar línur og fyrra fylkið, en jafnmarga dálka og seinna fylkið.

Til þess að stilla dæmum rétt upp þarf stundum leggja dálkvektora á hliðina og gera úr þeim línuvektora og öfugt. Sama máli gegnir um fylki; þau þarf líka stundum að leggja á hliðina. Það heitir að þeim sé bylt.