Talnarunur
Vektorar
Fylgni
Leitni
  Stundum skiptir röð talna í safni máli. Til dæmis má nefna tölur sem er safnað með ákveðnu millibili, einu sinni á mínútu eða einu sinni á dag. Annað dæmi er, þegar bera skal saman einkunnir allra nemenda í einum bekk. Þá skiptir röð einkunnanna í sjálfu sér ekki máli, en nauðsynlegt er að gæta þess að þeim sé raðað eins hjá öllum nemendunum.

Talnasöfnum þar sem röð skiptir máli gefum við sérstakt nafn og köllum þau runur eða vektora. Um slíka runu getum við verið forvitin á ýmsan hátt:

  • Ætli gildin í rununni fari stöðugt hækkandi eða stöðugt lækkandi? Þá er sagt að umtalsverð tilhneiging eða leitni sé í talnarununni.

  • Eru breytingar í talnagildum rununnar í samræmi við hegðun annarrar talnarunu? Þá er talað um fylgni á milli þeirra. Hefur önnur runan kannski áhrif á hegðun hinnar? Er kannski töf eða hliðrun í þessum áhrifum? Það sést í víxlfylgninni.

  • Endurtaka gildin í rununni sig með vissu millibili? Hversu löng er hver lota í endurtekningunni? Það má til dæmis kanna með því að athuga sjálffylgni rununnar, sem er ekkert annað en víxlfylgni hennar við sjálfa sig.
Til þess að kanna þessa þætti er yfirleitt hentugt að líta á runu sem vektor og beita á hana þeim reiknireglum sem nemendur ættu að kannast við. Það hefur líka þann kost að í tölvuforritum er yfirleitt farið með talnarunur sem vektora (oftast þó nefndir array) og stærðfræðilegt táknmál okkar fellur þá vel að forrituninni.