Líkur
Vongildi
Talning
Tvíliðareglan
  Sumar tilraunir gefa nokkurnveginn sömu niðurstöðu í hvert sinn sem þær eru framkvæmdar: Ef við til að mynda látum stein detta úr fimm metra hæð er hann um það bil eina sekúndu að falla til jarðar, hvar og hvenær sem er. Aðrar tilraunir geta skilað mismunandi niðurstöðum við hverja endurtekningu: Ef við veljum í blindni spil úr spilastokk fáum við til skiptis hjarta, spaða, tígul eða lauf og vitum ekki hvaða litur kemur næst (ef spilunum er jafnóðum skilað í stokkinn). Þar ræður tilviljun ferðinni.

Enda þótt við getum ekki sagt fyrir um næsta spil úr stokknum getum við ákvarðað líkurnar á því að fá tiltekna niðurstöðu, vegna þess að í stokknum er endanlegur fjöldi spila í hverjum lit. Nánar tiltekið eru líkurnar p á að fá tiltekna gerð af spili úr stokknum reiknaðar sem fjöldi slíkra spila k deilt með heildarfjölda spilanna n,

p = k / n

Líkurnar á að draga hjarta úr fullum stokk eru því p = 13/52 = 0,25 eða 25%. Líkurnar á að draga mannspil úr stokknum eru p = (3*4)/52 = 23,1% og líkurnar á að draga spaðaás úr stokknum eru p = 1/52, = 0,0192 = 1,92%.

Oft er talað um líkur þótt ekki sé hægt að reikna þær með þessum hætti. Við segjum til að mynda að það séu 40% líkur á rigningu í Reykjavík á 17. júní, ef reynslan af 30 síðastliðnum þjóðhátíðardögum er sú að það rigndi í 12 skipti. Þannig líkur, byggðar á reynslu, eru að sjálfsögðu fullgild leið til að leggja skynsamlegt mat á framtíðina, en þær verða þó ekki til frekari umræðu hér.

Loks eru orð úr líkindareikningi stundum notuð til að tjá tilfinningalega afstöðu: Það er 100% öruggt að brúðhjónin verða hamingjusöm! Þá hefur hugmyndin um líkur verið yfirfærð á annað svið mannlegrar reynslu og orðin misst merkingu sína.