Hafnarhúsið var reist á árunum 1933-39 og stækkað árin 1957-58. Það var endurgert á árunum 1998-2000 til að hýsa Listasafn Reykjavíkur.
Húsið er teiknað af Sigurði Guðmyndssyni, sem var einn af frumkvöðlum í íslenskri byggingarlist, í samvinnu við Þórarinn Kristjánsson hafnarstjóra. Húsið var upphaflega ætlað sem pakk- og iðnaðarhúsnæði. Húsið er mikilvæg bygging í íslenskri húsagerðarsögu. Það er eitt merkasta dæmi um iðnaðararkitektúr frá frumárum módernismans.
Þegar byggingu hússins lauk árið 1939 var það stærsta bygging landsins og bar stíleinkenni hins alþjóðlega módernisma. Byggingin sjálf er tiltölulega lokuð út á við sem endurspeglar upprunalegt hlutverk hennar sem iðnaðarhúsnæði. Áhersla er lögð á notkun byggingarinnar, auk samspils láréttra og lóðréttra lína. Stórar vöruhurðir á húsinu á vestur og austur hliðum þess minna á upprunalega notkun þegar vörubifreiðar keyrðu þvert í gegnum húsið. Þær hurðir fengu að halda sér við endurgerð hússins árið 1998.
Heimild: Húsvernd: Framtíðarsýn & fortíðarhyggja