Gunnlaugur Halldórsson teiknaði þessar húsalengjur, sem eru hluti af verkamannabústöðunum. Neðst á myndinni er leikvöllurinn Héðinsvöllur og þar er stytta af Héðni Valdimarssyni sem hafði forgöngu um byggingu verkamannabústaðanna.
"Verkamannabústaðirnir voru fyrsta stórverkefni Gunnlaugs. Athyglisvert er að bera saman verk hans og Guðjóns Samúelssonar þar sem þau standa hlið við hlið. Húsasamstæða Guðjóns er í samhverfum ramma að klassískum sið. Gunnlaugur brýtur aftur á móti þann ramma að hætti fúnksjónalismans og raðar húsasamstæðum upp eftir birtuþörf og lætur útrýmið opnast til suðurs, sem var öldungis óséð áður. Þær fremstu tvær eru í beinni röð nema hvað sú við götu er einni einingu styttri. Hin þriðja er ögn skásett vegna götulegunnar. Vestast kemur svo þriðja bragð, hver eining er skásett og tengist þeirri næstu um hálfan gafl til að ná til sólar, sem var og algjör nýlunda."
[Hörður Águstsson: Íslensk byggingararfleifð]