Verkamannabústaðirnir við Hringbraut er húsasamstæða sem reist var í vesturbæ Reykjavíkur í þremur áföngum á árunum 1931-1937 af Byggingarfélagi verkamanna (síðar Byggingarfélag alþýðu). Húsin eru tvílyft og með kjallara. Fjórar íbúðir eru í hverju húsi. Það var nýjung þegar húsin voru byggð að í hverri íbúð var rafmagnseldavél og baðherbergi með vatnssalerni og baðkeri. Einnig var fjarhitun í íbúðunum í gegnum tvær miðstöðvar og þar með heitt rennandi vatn í krönum.
Eftir fyrri heimsstyrjöld fór umræðan um húsakost verkafólks hátt um alla Evrópu. Góður arkitektúr skyldi ekki vera munaður hinna betur settu heldur ættu allir að eiga kost á vönduðum húsakosti og heilsusamlegu umhverfi. Á Íslandi var Guðmundur Hannesson læknir fyrstur til að taka upp þessa umræðu og Guðjón Samúelsson benti skömmu síðar á nauðsyn þess að stofna hér byggingarfélagsskap. Væri það forsenda þess að almenningur hefði aðgang að vönduðu og heilsusamlegu húsnæði.
Guðjón Samúelsson gerði frumteikningar að fyrsta hlutanum, en síðan tók Einar Erlendsson við þeim og breytti þeim í verulegum atriðum eftir óskum félagsmanna. Í lokin reisti Byggingarfélag alþýðu fleiri hús austan Hofsvallagötu eftir teikningum Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts. Skipulag verkamannabústaðanna var í anda fúnkisstefnunnar.