Bræðraborgarstígur 1. Um aldamótin 1900 var hér reist hús sem síðar var stækkað. Sveinn Hjartarson og Steinunn Sigurðardóttir keyptu húsið 1910 og ráku bakarí á neðstu hæðinni. Bakarinn og bakaríið náði fljótt vinsældum og var þessi neðsti hluti Bræðraborgarstígs gjarnan nefnt Sveinsbrekka.
Sveinn var einn stofnenda Rúgbrauðsgerðarinnar og tók líka þátt í togaraútgerð. Steinunn var fædd í Hlíðarhúsum einum Hlíðarhúsabæjanna neðst við Vesturgötuna. Hún er talin fyrst kvenna á Íslandi til að læra að aka bíl sem og meðal þeirra fyrstu til að stunda laxveiði. Steinunn missti tvær systur sínar úr spönsku veikinni og tóku hún og Sveinn fjögur af börnum þeirra í fóstur og önnur börn systranna áttu líka ætíð athvarf hjá þeim. Áður höfðu þau ættleitt eina stúlku og auk þess átti Sveinn son frá fyrra sambandi. Einn fóstursonurinn sagði síðar að hann hefði upplifað heimili þeirra sem "himnaríki á jörðu".
Húsið brann í skelfilegum eldsvoða árið 2020.