Fyrir aldamótin 1800 stóð þarna eitt af geymsluhúsum Innréttinganna en þegar það var rifið byggði Einar Hákonarson hattari hús þarna. Í húsinu bjó Jónas Hallgrímsson síðasta tímabilið sem hann dvaldist í Reykjavík, Benedikt Gröndal bjó seinna í því sama herbergi og Sigurður Breiðfjörð andaðist uppi á lofti í Hákonsenhúsi.
Síðar eignaðist húsið tengdasonur Einars, Valgarður Ó. Breiðfjörð, og lét ítrekað byggja við húsið, hækka það og stækka, oft í trássi við yfirvöld. Hann rak þarna verslun og veitingasal og bakhúsinu breytti hann í leikhús með inngang frá Bröttugötu, Breiðfjörðsleikhúsið. Þar hófust kvikmyndasýningar Reykjavíkur Biograftheater þann 2. nóvember 1906 og er sagt að salurinn hafi tekið 300 manns í sæti.