Vesturgata 5. Húsið lét Einar Benediktsson skáld reisa skömmu fyrir aldamótin 1900 á lóð hússins Glasgow sem stóð ofar í brekkunni. Eftir 1910 átti það um árabil Skúli Jónsson útgerðarmaður og var húsið þá kallað Aberdeen og Skúli jafnan kenndur við það.
Húsið Glasgow var reist 1863 af kaupmanni að nafni Henderson sem var frá Glasgow, en alþýða manna nefndi húsið oft Glerskó. Það var á sinni tíð stærsta hús á landinu og glæsileg verslun, en Benedikt Gröndal segir "...þessi dýrð stóð ekki lengi, því eigendurnir settu íslenska menn fyrir verzunina og þeim varð ekki ráðafátt að að koma öllu fyrir kattarnef ..."
Í Glasgow var salur sem rúmaði 200 manns og þar voru haldnar ýmiss konar samkomur og skemmtanir. Náttúrugripasafnið var um hríð í húsinu. Árið 1879 var þar haldin fyrsta málverkasýning á Íslandi og sýndar eftirprentanir erlendra málverka og árið 1900 þar var haldin fyrsta málverkasýning íslensks listmálara þar sem Þórarinn B. Þorláksson sýndi verk sín.
Vorið 1903 brann Glasgow og var það mesti bruni sem þá hafði orðið í Reykjavík.