Þegar Magnús Kjaran rak þarna verslun fékk hann vin sinn Þórberg Þórðarson til að yrkja lofkvæði um svokallaða glaxómjólk sem var seld í versluninni og var talin mikil búbót í því mjólkurleysi sem þá var oft í bænum.
Það er svo oft í dauðans skuggadölum
að dregur myrkva fyrir lífsins sól,
og ýlustráin veina á bleikum bölum,
og börnin ráfa mjólkurlaus á hól.
Þá brýst þú feit úr mannvits hæðum háu,
ó! helga lind, sem þaggar sultarjag!
Þú glaxómjólk, sem gleður börnin smáu,
og gömlum veitir eilíft líf í dag!