Sigurður Jónsson járnmiður byggði húsið og hafði smiðju sína í austurhluta neðri hæðar hússins. Form hússins og skipulag þess ber upphaflegrar notkunar merki, t.d. voru í því tveir skorsteinar annar fyrir járnsmiðjuna en hinn til nota fyrir húsið að öðru leyti. Jafnframt ber það nokkuð form af efnivið þeim sem til byggingarinnar var notaður, en það var að stórum hluta til timbur úr strandi skipsins Jamestown, stóru skipi sem strandaði við Garðskaga fulllestað timbri. Bygging hússins og rekstur járnsmiðjunnar varð Sigurði ofviða fjárhagslega. Hann missti húsið og verkfæri járnsmiðjunnar urðu grunnur að Vélsmiðjunni Héðni.
Meðal þeirra fjölbreyttu verkefna sem Benedikt Gröndal sinnti var að safna, lýsa og teikna dýralífið í fjörunni neðan við húsið. Hann keypti lóðina fyrir framan húsið "svo þar yrði ekki byggt fyrir mig og öll dagsbirta burtu tekin." Á þeirri lóð var 1927 byggt allmikið steinhús og Gröndalshús varð þá bakhús.
Húsið þótti standa í vegi fyrir framkvæmdum á Vesturgötunni og var flutt þaðan í heilu lagi. Eftir nokkra hrakninga um borgin var því komið fyrir á núverandi stað árið 2017 og gert að safni um Benedikt með íbúð og aðstöðu fyrir fræðimenn í kjallara og á efri hæð.