Frægasta húsið í Grjótaþorpi er án efa Unuhús, sem stendur við Garðastræti fyrir ofan Mjóstræti 4. Í því litla húsi var samkomustaður allra helstu listamanna bæjarins á millistríðsárunum, þar sem Erlendur sonur Unu serveraði kaffi og bakkelsi af mikilli rausn.
Fastagestir Unuhúss voru til dæmis Stefán frá Hvítadal, Steinn Steinarr, Halldór Laxness, Nína Tryggvadóttir, Louisa Matthíasdóttir og Þórbergur Þórðarson, en hinn síðastnefndi skrifaði bók sem nefndist: Í Unuhúsi eftir frásögn Stefáns frá Hvítadal.
Húsið er nefnt eftir Unu Gísladóttir (1855-1924). Hún hafði kostgangara og leigði út herbergi í húsinu. Fæðið var ódýrara hjá henni en annars staðar í Reykjavík og húsnæðið sömuleiðis. Af þeim sökum dróst fólk að henni sem lítil auraráð hafði og átti hvergi höfði sínu að að halla.