Einmitt.is

Talnasöfn og tölfræði


Eitt af því sem nauðsynlegt er að kunna skil á í mörgum fræðigreinum er meðferð og túlkun talnasafna. Þetta á jafnt við um læknisfræði, viðskiptafræði, félagsfræði, verkfræði, líffræði og eðlisfræði og svona má lengi telja. Talnasöfn og tölfræði er námsefni sem ætlað er að koma til móts við þessar þarfir á nútímalegan hátt, með því að hagnýta tölvuna bæði sem kennslutæki og verkfæri við tölulega reikninga.

Námsefnið hvílir jafnt á þremur stoðum: textabók, vefsíðum og notkun töflureiknis. Í textabókinni er námsefnið útskýrt með nokkuð hefðbundnum hætti en án allra stærðfræðilegra sannana. Textinn gengur út frá því að allir meiriháttar talnareikningar séu framkvæmdir í Excel töflureikni og sýnidæmin miðast yfirleitt við það. Vefsíðurnar fjalla um sama efni og textabókin en frá nokkuð öðru sjónarhorni. Þar er að finna ýmislegt ítarefni, sögulegan fróðleik, dýpri stærðfræðilegar pælingar og námsefnið er stundum skýrt með öðrum hætti. Öll sýnidæmi á vefnum eru með með lifandi tengingar við Excel þannig að hægt er að skoða hvernig þau eru sett upp í töflureikninum, breyta forsendum þeirra og skoða áhrifin eða afrita þau til að nota sem fyrirmynd til að leysa eigin verkefni.

Kennslubókin og vefurinn skiptast í sex kafla.

  • Fyrstu tveir kaflarnir fjalla um lýsingu og túlkun talnasafna þar sem öll stök safnsins eru þekkt. Megináhersla er lögð meðaltal sem lágmörkun fervika í talnasafni og fylgni sem horn milli vektora. Á þeim grunni eru helstu kennistærðir og túlkunaraðferðir talnasafna útskýrðar.
  • Þriðji kaflinn fjallar um talningarfræði og líkindareikning og í framhaldi af því er í fjórða kafla fjallað um líklegt samband úrtaks og þýðis. Efnið er reifað í stórum dráttum, en þó er lögð áhersla á að færa fullnægjandi rök fyrir reiknireglum um úrtak. Aðaláhersla er lögð á að opna augu nemenda fyrir því að kennistærðir úrtaksins hafa fyrirsegjanlega dreifingu.
  • Síðustu tveir kaflarnir fjalla svo um dreifingu talnasafna, tilgátur um talnasöfn og prófanir á tilgátum.

    Þeir sem vilja skoða vefinn geta annað hvort gert það hér á www.eimitt.is eða sótt hann í heilu lagi sem zip-skrá og sett upp á eigin tölvu. Notkun hans er öllum heimil. Bókina má líka sækja hér á vefnum (886 KB zip-skrá). Erindi um þetta kennsluefni var flutt á alþjóðlegri ráðstefnu um stærðfræðikennslu í Grikklandi í júlí 1998. Annað erindi var flutt á ráðstefnuni UT99 og í framhaldi af því birtist grein í Tölvumál, maí 1999.


    Heimasíða Freys Þórarinssonar