Forritunarmálið Perl
Á undanförnum árum hefur Perl unnið sér sess sem vinsælasta , fyrst í Unix stýrikerfinu, svo í Windows og nú er það til fyrir öll algeng stýrikerfi. Upphaflega var Perl hugsað sem skriftumál fyrir kerfisstjóra, en það sló verulega í gegn sem þægilegt mál til að skrifa CGI forrit á vefþjónum. Þær vinsældir byggðust einkum á öflugri strengjavinnslu Perl.
Síðan hefur Perl ná útbreiðslu á fjölmörgum ólíkum sviðum, meðal annars í líftækni og lífvísindum. Auk þess hefur það fest sig í sessi sem kerfisstjórnarmál og Microsoft hefur t.d. staðið straum af kostnaði við að útfæra það fyrir Windows.
Í Windows umhverfi þekkjast Perl forrit á nafnauka sínum (vernjulega *.pl, stundum líka *.cgi). Í Unix umhverfinu er Perl-skráin hins vegar gerð keyrsluhæf (með chmod) og fyrsta lína forritsins er vísar á staðsetningu túlksins, oftast svona:
#!/usr/local/bin/perl
Að flestu öðru leyti gengur sami kóði í báðum stýrikerfum. Þessi fyrsta lína gerir engann skaða í Windows (því samkvæmt Perl er hún bara athugasemd comment) og því er hún oft látin fljóta með. Á þessum vef er henni þó yfirleitt sleppt.
Fjölmargar góðar bækur eru á boðstólum um ýmsar hliðar Perl forritunar (flestar þær bestu reyndar frá O'Reilly) og einnig hafa margir spreytt sig á að skrifa vefsíður með leiðbeiningum um Perl forritun. Tvö dæmi eru Perl Tutorial, ekki mjög stórt safn af vefsíðum hjá háskólanum í Leeds á Englandi, og Roberts Perl tutorial, sem er ein löng vefsíða með nokkuð ítarlegri yfirferð yfir byrjunaratriði Perl forritunar.
Hér verður því látið duga að benda á nokkur sérkenni í málfræði Perl út frá sjónarmiði forritara sem hafa kynnst C eða öðrum svipuðum málum. Að öðru leyti er vísað til ofangreindra rita og vefsíðna.