Skyldleikinn milli langömmu minnar, Sigríðar Thorsteinson, og ömmu hennar Valgerðar Jónsdóttur    
Myndin fannst ekki!

Um Valgerði Jónsdóttur

Valgerður Jónsdóttir giftist Hannesi Finnssyni biskupi í Skálholti þegar hún var 18 ára en hann fimmtugur. Hannes hafði áður átt Þórunni Ólafsdóttur, en þeirra börn komust ekki upp. Hannes lést eftir sjö ára hjónaband og Valgerður varð því ekkja 25 ára gömul. Þau Hannes eignuðust fjögur börn: Jón, Ólaf, Þórunni og Sigríði.

Árið 1806 giftist Valgerður Steingrími Jónssyni, sem þá var lektor (rektor) í Bessastaðaskóla; hann var fyrsti rektor skólans. Steingrímur hafði verið ritari Hannesar biskups og kennari á heimili biskupshjónanna í Skálholti. Árið 1811 var hann vígður prestur í Odda á Rangárvöllum og síðan tók hann við biskupsembætti 1825. Valgerður og Steingrímur eignuðust einn son, Hannes.

Það er skemmtilegt að pæla í því hvaða nöfnum Valgerður skírði börn sín. Jón og Sigríður hétu sömu nöfnum og foreldrar Valgerðar, Þórunn hét eftir fyrri konu Hannesar og Ólafur eftir föður hennar. Hannes (Steingrímsson) Johnsen hét síðan eftir fyrri eiginmanni Valgerðar. Sum þessara nafna eru enn býsna algeng í fjölskyldunni.

Mikið handritasafn varð til á biskupsheimilunum. Hannes hafði erft safn föður síns og afa og sjálfur hafði hann aukið við safnið, sem Valgerður erfði svo við lát hans. Steingrímur jók enn við safnið og að honum látnum bauð Valgerður Landsbókasafni allt handritasafnið, alls 393 bindi, til kaupa. Þann 5. júní 1846 undirritaði konungur formlegt leyfi á kaupunum og er sá dagur talinn stofndagur handritasafns Landsbókasafns.

Talið er að íslenskar konur hafi farið að klæðast fyrsta vísi að peysufötum, sem einnig voru nefnd húfubúningur, í lok 18. aldar. Þá fóru konur að nota húfur með skúfi hversdags í staðinn fyrir falda eða skaut. Valgerður Jónsdóttir biskupsfrú í Skálholti er talin fyrst kvenna á Íslandi til ganga hversdags í peysufötum laust fyrir aldamótin 1800 en slíkur klæðnaður verður svo algengur á fyrri hluta 19. aldar.